Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
8 Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast.
9 Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur.
10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."
11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns.
12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann.
13 Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?"` Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."
14 Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?" Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."
15 Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.
16 Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son." En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni."
17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.
18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna.
19 Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar."
20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann.
21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt.
22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."
23 En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur." Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!"
24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér."
25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem!
26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?"` Hún svaraði: "Okkur líður vel."
27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."
28 Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?"`
29 Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."
30 En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.
31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"
32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans.
33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins.
34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins.
35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.
36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!"
37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.
10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: "Ananías." Hann svaraði: "Hér er ég, Drottinn."
11 Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja.
12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."
13 Ananías svaraði: "Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem.
14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt."
15 Drottinn sagði við hann: "Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels,
16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns."
17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: "Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda."
18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast.
19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus
20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.
21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"
22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.
23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.
24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.
25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.
26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.
27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.
28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.
29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.
30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.
31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.
7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."
10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"
11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."
12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"
13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."
14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."
15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.
by Icelandic Bible Society