Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Sálmarnir 119:73-96

73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.

74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.

75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.

76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.

77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.

78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.

79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.

80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.

81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.

82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?

83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.

84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?

85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.

86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.

87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.

88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Fyrri bók konunganna 22:1-28

22 Nú héldu þeir kyrru fyrir í þrjú ár, og var enginn ófriður milli Sýrlands og Ísraels.

En á þriðja ári fór Jósafat konungur í Júda á fund Ísraelskonungs.

Og Ísraelskonungur sagði við þjóna sína: "Vita munuð þér, að vér eigum Ramót í Gíleað, en vér höfumst eigi að og tökum hana ekki frá Sýrlandskonungi."

Þá mælti hann við Jósafat: "Hvort munt þú fara með mér í hernað til Ramót í Gíleað?" Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð, mína hesta og þína hesta."

Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Gakk þú fyrst til frétta og vit hvað Drottinn segir."

Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, um fjögur hundruð manns, og sagði við þá: "Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?" Spámennirnir svöruðu: "Far þú, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi."

En Jósafat mælti: "Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?"

Ísraelskonungur mælti til Jósafats: "Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu. Hann heitir Míka Jimlason." Jósafat sagði: "Eigi skyldi konungur svo mæla."

Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: "Sæk sem skjótast Míka Jimlason."

10 En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim.

11 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: "Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim."

12 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: "Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur þér."

13 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: "Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju."

14 En Míka svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, það sem Drottinn til mín talar, það mun ég mæla."

15 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: "Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?" Þá sagði Míka við hann: "Far þú. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi!"

16 Þá sagði konungur við hann: "Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?"

17 Þá mælti Míka: "Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin, eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: ,Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín."`

18 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: "Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu?"

19 Þá mælti Míka: "Eigi er svo! Heyr orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum.

20 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt.

21 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?`

22 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti Drottinn: ,Þú skalt ginna hann og þér mun takast það. Far og gjör svo!`

23 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn öllum þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu."

24 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: "Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?"

25 Þá mælti Míka: "Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað."

26 Þá mælti Ísraelskonungur: "Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni

27 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi."`

28 Þá mælti Míka: "Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn," og hann mælti: "Heyri það allir lýðir!"

Fyrra bréf Páls til Korin 2:1-13

Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.

Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.

Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.

Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,

til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.

Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,

heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.

Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.

10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.

11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.

12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.

13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.

Matteusarguðspjall 4:18-25

18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.

21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,

22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.

24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.

25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society