Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 45

45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.

Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.

Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.

Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

Sálmarnir 47-48

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.

Fyrri bók konunganna 16:23-34

23 Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa.

24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu.

25 Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum,

26 og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.

27 Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

28 Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann.

29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.

30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum.

31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann.

32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu.

33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.

34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.

Bréf Páls til Filippímann 1:12-30

12 En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar.

13 Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists,

14 og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.

15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug.

16 Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar.

17 Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína.

18 En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig.

19 Því að ég veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bænir yðar og hjálpina, sem andi Jesú Krists veitir mér.

20 Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða.

21 Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.

22 En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa.

23 Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra.

24 En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu.

25 Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni.

26 Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú.

27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið

28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar.

29 Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.

30 Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.

Markúsarguðspjall 16

16 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.

Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?"

En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.

Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.

En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`."

Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.

Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda.

10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.

11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki.

12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit.

13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur.

14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn.

15 Hann sagði við þá: "Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.

16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.

17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum,

18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."

19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society