Book of Common Prayer
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.
3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!
4 Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!
5 Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]
6 Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!
7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]
8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:
9 "Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."
10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.
11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.
44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.
3 Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.
4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.
5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.
6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.
7 Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,
8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.
9 Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]
10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.
11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.
12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.
13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.
14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,
17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.
18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.
19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,
20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.
21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,
22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.
24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!
25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?
26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.
27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.
13 Og sjá, þegar Jeróbóam stóð fyrir altarinu til þess að færa þar reykelsisfórn, kom guðsmaður nokkur frá Júda til Betel að boði Drottins
2 og æpti gegn altarinu að boði Drottins og mælti: "Altari, altari! Svo segir Drottinn: Sonur mun fæðast húsi Davíðs, Jósía að nafni. Hann mun á þér slátra hæðaprestunum, þeim er færa reykelsisfórnir á þér, og mannabeinum mun á þér brennt verða."
3 Og hann boðaði tákn þann dag og mælti: "Þetta er tákn þess, að Drottinn hafi talað: Sjá, altarið mun rifna og askan, sem á því er, steypast niður."
4 Þegar konungur heyrði orð guðsmannsins, þau er hann æpti gegn altarinu í Betel, þá bandaði Jeróbóam með hendinni frá altarinu og mælti: "Takið hann höndum!" Þá visnaði hönd hans, er hann hafði bandað með móti honum, og hann gat ekki dregið hana að sér aftur.
5 En altarið rifnaði og askan steyptist niður af altarinu, samkvæmt tákninu, er guðsmaðurinn hafði boðað eftir skipun Drottins.
6 Þá tók konungur til máls og mælti við guðsmanninn: "Blíðka þú Drottin, Guð þinn, og bið fyrir mér, svo að ég geti aftur dregið höndina að mér." Þá blíðkaði guðsmaðurinn Drottin, svo að konungur gat aftur dregið að sér höndina, og varð hún jafngóð.
7 Því næst mælti konungur við guðsmanninn: "Kom þú heim með mér og hress þig, og mun ég gefa þér gjöf nokkra."
8 En guðsmaðurinn mælti við konung: "Þótt þú gæfir mér hálfa aleigu þína, þá mundi ég samt eigi með þér fara, og eigi mundi ég matar neyta og eigi vatn drekka á þessum stað.
9 Því að svo hefir mér boðið verið fyrir orð Drottins, er var á þessa leið: ,Þú skalt eigi matar neyta né vatn drekka, og þú skalt eigi snúa aftur sömu leiðina sem þú komst."`
10 Síðan fór hann burt aðra leið og sneri eigi aftur sömu leiðina sem hann hafði farið til Betel.
1 Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, heilsa öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar,
4 og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum,
5 vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa.
6 Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
7 Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það.
8 Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú.
9 Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind,
10 svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists,
11 auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.
40 Þar voru og konur álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme.
41 Þær höfðu fylgt honum og þjónað, er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur, sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem.
42 Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag.
43 Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú.
44 Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn.
45 Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið.
46 En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann.
47 María Magdalena og María móðir Jóse sáu, hvar hann var lagður.
by Icelandic Bible Society