Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 31

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.

Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni

og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.

11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.

12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.

14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"

16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.

Sálmarnir 35

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.

Fyrri bók konunganna 11:26-43

26 Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja.

27 Þannig atvikaðist uppreisnin: Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans.

28 Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar.

29 En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi.

30 Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti

31 og sagði við Jeróbóam: "Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar,

32 en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels,

33 sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans.

34 En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög.

35 En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar.

36 En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar.

37 En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael.

38 Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael.

39 En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi."

40 En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist.

41 Það, sem meira er að segja um Salómon og allt það, er hann gjörði, og um speki hans, það er ritað í Annálum Salómons.

42 Og sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár.

43 Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.

Hið almenna bréf Jakobs 4:13-5:6

13 Heyrið, þér sem segið: "Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!" _

14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.

15 Í stað þess ættuð þér að segja: "Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað."

16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.

17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.

Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.

Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,

gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.

Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.

Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.

Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.

Markúsarguðspjall 15:22-32

22 Þeir fara með hann til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir "hauskúpustaður."

23 Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki.

24 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir skiptu með sér klæðum hans og köstuðu hlutum um, hvað hver skyldi fá.

25 En það var um dagmál, er þeir krossfestu hann.

26 Og yfirskriftin um sakargift hans var svo skráð: KONUNGUR GYÐINGA.

27 Með honum krossfestu þeir tvo ræningja, annan til hægri handar honum, en hinn til vinstri. [

28 Þá rættist sú ritning, er segir: Með illvirkjum var hann talinn.]

29 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín og sögðu: "Svei, þú, sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum!

30 Bjarga nú sjálfum þér, og stíg niður af krossinum."

31 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og sögðu hver við annan: "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað.

32 Stígi nú Kristur, konungur Ísraels, niður af krossinum, svo að vér getum séð og trúað." Einnig smánuðu hann þeir, sem með honum voru krossfestir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society