Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.

24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.

26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,

28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.

29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.

30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.

31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,

33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,

36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,

38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Fyrri bók konunganna 11:1-13

11 Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum _

konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður. Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna` _ til þeirra felldi Salómon ástarhug.

Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis.

Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið.

Og Salómon elti Astarte, goð Sídoninga, og Milkóm, viðurstyggð Ammóníta.

Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni, eins og gjört hafði Davíð faðir hans.

Þá reisti Salómon fórnarhæð fyrir Kamos, viðurstyggð Móabíta, á fjallinu sem liggur fyrir austan Jerúsalem, og fyrir Mólok, viðurstyggð Ammóníta.

Og svo gjörði hann fyrir allar hinar útlendu konur sínar, sem færðu goðum sínum reykelsisfórnir og sláturfórnir.

En Drottinn reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá Drottni, Ísraels Guði, sem þó hafði vitrast honum tvisvar

10 og bannað honum að elta aðra guði, en hann hafði ekki haldið það, sem Drottinn bauð honum.

11 Fyrir því sagði Drottinn við Salómon: "Sökum þess, að þú hefir farið svo að ráði þínu og eigi haldið sáttmálann við mig, né skipanir þær, er ég fyrir þig lagði, þá mun ég rífa frá þér konungdóminn og fá hann í hendur þjóni þínum.

12 Þó mun ég ekki gjöra það meðan þú ert á lífi, vegna Davíðs föður þíns, en frá syni þínum mun ég rífa hann.

13 Samt mun ég eigi rífa frá honum allt konungsríkið. Eina ættkvísl mun ég fá syni þínum í hendur, vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem, sem ég hefi útvalið."

Hið almenna bréf Jakobs 3:13-4:12

13 Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.

14 En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.

15 Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.

16 Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.

17 En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.

18 En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.

Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?

Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.

Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!

Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.

Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"

En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."

Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.

Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.

Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.

10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.

11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari.

12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?

Markúsarguðspjall 15:12-21

12 Pílatus tók enn til máls og sagði við þá: "Hvað á ég þá að gjöra við þann, sem þér kallið konung Gyðinga?"

13 En þeir æptu á móti: "Krossfestu hann!"

14 Pílatus spurði: "Hvað illt hefur hann þá gjört?" En þeir æptu því meir: "Krossfestu hann!"

15 En með því að Pílatus vildi gjöra fólkinu til hæfis, gaf hann þeim Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.

16 Hermennirnir fóru með hann inn í höllina, aðsetur landshöfðingjans, og kölluðu saman alla hersveitina.

17 Þeir færa hann í purpuraskikkju, flétta þyrnikórónu og setja á höfuð honum.

18 Þá tóku þeir að heilsa honum: "Heill þú, konungur Gyðinga!"

19 Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann.

20 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

21 En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society