Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 25

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Sálmarnir 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

Sálmarnir 15

15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,

sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;

sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,

sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.

Síðari Kroníkubók 6:32-7:7

32 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi sakir þíns mikla nafns, þinnar sterku handar og þíns útrétta armleggs _ ef þeir koma hingað og biðja frammi fyrir þessu húsi,

33 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.

34 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til borgar þessarar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,

35 þá heyr þú frá himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra.

36 Ef þeir syndga í gegn þér _ því að enginn er sá er eigi syndgi _ og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til lands, langt eða skammt í burtu,

37 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í útlegðarlandi sínu og segja: ,Vér höfum syndgað, vér höfum misgjört og vér höfum breytt óguðlega,`

38 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í útlegðarlandi sínu, þangað sem þeir hafa flutt þá hernumda, og þeir biðjast fyrir og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,

39 þá heyr þú frá himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, rétt þú hlut þeirra og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér.

40 Svo veri þá, Guð minn, augu þín opin og eyru þín gaumgæfin á bæn þá, er fram er borin á þessum stað.

41 Tak þig þá upp, Drottinn Guð, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns. Prestar þínir, Drottinn Guð, séu klæddir hjálpræði, og þínir guðhræddu gleðjist yfir gæfunni.

42 Drottinn Guð, vísa þínum smurða eigi frá, minnst þú náðarveitinganna við Davíð þjón þinn."

Þegar Salómon hafði lokið bæn sinni, kom eldur af himni og eyddi brennifórninni og sláturfórninni, og dýrð Drottins fyllti húsið.

Og prestarnir máttu eigi inn ganga í musteri Drottins, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.

Og er allir Ísraelsmenn sáu, að eldinum laust niður og að dýrð Drottins steig niður yfir húsið, þá hneigðu þeir ásjónur sínar til jarðar, niður á steingólfið, lutu og lofuðu Drottin: "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu."

Þá fórnaði konungur og allur lýðurinn sláturfórnum frammi fyrir Drottni.

Salómon konungur fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn. Þannig vígði konungur og allur lýðurinn musteri Guðs.

En prestarnir stóðu á sínum stað, og sömuleiðis levítarnir með hljóðfæri Drottins, þau er Davíð konungur hafði gjöra látið til þess að þakka Drottni: "Því að miskunn hans varir að eilífu," og þeir léku lofsöng Davíðs, en andspænis þeim þeyttu prestarnir lúðra, en allur Ísrael stóð.

Og Salómon vígði miðhluta forgarðsins, er liggur frammi fyrir musteri Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórnum og hinum feitu stykkjum heillafórnanna. Því að eiraltarið, það er Salómon hafði gjöra látið, gat eigi tekið brennifórnirnar og matfórnirnar og feitu stykkin.

Hið almenna bréf Jakobs 2:1-13

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.

Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,

ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"

hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?

Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?

En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?

Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?

Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: "Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig", þá gjörið þér vel.

En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn.

10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess.

11 Því sá sem sagði: "Þú skalt ekki hórdóm drýgja", hann sagði líka: "Þú skalt ekki morð fremja." En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið.

12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.

13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.

Markúsarguðspjall 14:53-65

53 Nú færðu þeir Jesú til æðsta prestsins. Þar komu saman allir æðstu prestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir.

54 Pétur fylgdi honum álengdar, allt inn í garð æðsta prestsins. Þar sat hann hjá þjónunum og vermdi sig við eldinn.

55 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu vitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, en fundu eigi.

56 Margir báru þó ljúgvitni gegn honum, en framburði þeirra bar ekki saman.

57 Þá stóðu nokkrir upp og báru ljúgvitni gegn honum og sögðu:

58 "Vér heyrðum hann segja: ,Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.` "

59 En ekki bar þeim heldur saman um þetta.

60 Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"

61 En hann þagði og svaraði engu. Enn spurði æðsti presturinn hann: "Ertu Kristur, sonur hins blessaða?"

62 Jesús sagði: "Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins."

63 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hvað þurfum vér nú framar votta við?

64 Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?" Og þeir dæmdu hann allir sekan og dauða verðan.

65 Þá tóku sumir að hrækja á hann, þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu við hann: "Spáðu!" Eins börðu þjónarnir hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society