Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 5-6

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Sálmarnir 10-11

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Fyrri bók konunganna 1:38-2:4

38 Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar.

39 Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: "Lifi Salómon konungur!"

40 Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra.

41 Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: "Hví er öll borgin í uppnámi?"

42 En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: "Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi."

43 Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: "Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi.

44 Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs.

45 Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt.

46 Salómon hefir meira að segja setst í konungshásætið.

47 Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!` og hneigði konungur sig í hvílu sinni.

48 Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það."`

49 Þá skelfdust allir boðsgestir Adónía, héldu af stað, og fór hver leiðar sinnar.

50 En Adónía var hræddur við Salómon, hélt af stað og fór burt og greip um altarishornin.

51 Var Salómon sagt frá því með svofelldum orðum: "Sjá, Adónía er hræddur við Salómon konung, heldur um altarishornin og segir: ,Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki láta taka þjón sinn af lífi."`

52 Þá sagði Salómon: "Komi hann fram sem góður drengur skal ekki eitt af hárum hans falla til jarðar, en reynist hann ódrengur skal hann lífi týna."

53 Þá sendi Salómon konungur og lét taka hann frá altarinu, og er hann kom og laut Salómon konungi, sagði Salómon við hann: "Far þú heim til þín."

Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn:

"Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður.

Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér,

svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,` _ mælti hann _ ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`

Postulasagan 26:24-27:8

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: "Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan."

25 Páll svaraði: "Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti.

26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima.

27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það."

28 Þá sagði Agrippa við Pál: "Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn."

29 En Páll sagði: "Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum."

30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir, er þar sátu með þeim.

31 Þegar þau voru farin, sögðu þau sín á milli: "Þessi maður fremur ekkert, sem varðar dauða eða fangelsi."

32 En Agrippa sagði við Festus: "Þennan mann hefði mátt láta lausan, ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans."

27 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.

Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.

Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.

Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.

Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.

Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.

Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.

Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.

Markúsarguðspjall 13:28-37

28 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

29 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

30 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

31 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

32 En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn.

33 Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

34 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

35 Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun.

36 Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

37 Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society