Book of Common Prayer
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
5 Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: "Ég vil verða konungur." Og hann fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.
6 En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: "Hví hefir þú gjört þetta?" Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri.
7 Hann átti og ráðstefnur við Jóab Serújuson og Abjatar prest, og fylgdu þeir Adónía að málum.
8 En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður, Símeí, Reí og kappar Davíðs fylgdu eigi Adónía.
9 Adónía slátraði sauðum og nautum og alikálfum hjá Höggormssteini, sem er hjá Rógel-lind, og bauð til öllum bræðrum sínum, konungssonunum, og öllum Júdamönnum, þegnum konungs.
10 En Natan spámanni, Benaja og köppunum og Salómon bróður sínum bauð hann ekki.
11 Þá mælti Natan við Batsebu, móður Salómons, á þessa leið: "Hefir þú ekki heyrt, að Adónía sonur Haggítar er orðinn konungur, og Davíð, herra vor, veit það ekki?
12 Kom þú nú, og vil ég leggja þér ráð, hversu þú megir forða lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns.
13 Far þú og gakk fyrir Davíð konung og seg við hann: ,Hefir þú ekki, minn herra konungur, unnið ambátt þinni eið og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu? Hví er þá Adónía orðinn konungur?`
14 Sjá, meðan þú enn ert að tala þar við konung, skal ég koma á eftir þér og staðfesta orð þín."
15 Þá gekk Batseba fyrir konung inn í svefnhúsið, en konungur var þá gamall mjög, og Abísag frá Súnem þjónaði honum.
16 Batseba hneigði sig og laut konungi. Konungur mælti: "Hvað er þér á höndum?"
17 Hún sagði við hann: "Herra minn, þú hefir unnið ambátt þinni svolátandi eið við Drottin, Guð þinn: ,Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu.`
18 En sjá, nú er Adónía orðinn konungur, og þú veist það ekki, minn herra konungur!
19 Hann hefir slátrað fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og boðið til öllum konungssonum og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja, en Salómon þjóni þínum hefir hann ekki boðið.
20 Og nú standa augu allra Ísraelsmanna á þér, minn herra konungur, að þú gjörir kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag.
21 Ella mun svo fara, þegar minn herra konungurinn hvílir hjá feðrum sínum, að ég og Salómon sonur minn munum talin óbótamenn."
22 En meðan hún var að tala við konung, kom Natan spámaður.
23 Og konungi var sagt: "Natan spámaður er hér kominn." Gekk hann þá inn fyrir konung og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi
24 og mælti: "Minn herra konungur, hefir þú sagt: ,Adónía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu?`
25 Því að hann fór niður eftir í dag og slátraði fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og bauð til öllum konungssonunum, hershöfðingjunum og Abjatar presti. Þeir eru nú að eta og drekka hjá honum og hrópa: ,Adónía konungur lifi!`
26 En mér, þjóni þínum, Sadók presti, Benaja Jójadasyni og Salómon þjóni þínum bauð hann ekki.
27 Er þetta orðið að tilhlutun míns herra konungsins, þar sem þú hefir ekki gjört þjónum þínum kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag?"
28 Þá svaraði Davíð konungur og mælti: "Kallið á Batsebu!" Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi,
29 sór konungur og sagði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:
30 Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað _ svo vil ég staðfesta það í dag."
31 Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: "Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!"
26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:
2 "Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,
3 því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.
4 Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.
5 Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.
6 Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum
7 og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.
8 Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?
9 Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.
10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.
11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.
12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,
13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.
14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`
15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.
16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.
17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig
18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`
19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,
20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.
21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.
22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,
23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."
14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi _ lesandinn athugi það _ þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.
15 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt.
16 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.
17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.
18 Biðjið, að það verði ekki um vetur.
19 Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða.
20 Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.
21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki.
22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti.
23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.
24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína.
25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.
26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.
27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.
by Icelandic Bible Society