Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146-147

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Sálmarnir 111-113

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Síðari Samúelsbók 24:1-2

24 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: "Far þú og tel Ísrael og Júda."

Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: "Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er."

Síðari Samúelsbók 24:10-24

10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: "Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi:

12 "Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: "Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig."

14 Þá sagði Davíð við Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns.

16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta.

17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: "Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína."

18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: "Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta."

19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað.

20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi.

21 Og Aravna mælti: "Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?" Davíð svaraði: "Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum."

22 Aravna svaraði Davíð: "Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar.

23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum." Og Aravna mælti við konung: "Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!"

24 En konungur sagði við Aravna: "Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið." Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.

Bréf Páls til Galatamanna 3:23-4:7

23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.

24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.

25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.

26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.

27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.

28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.

Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt.

Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.

Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar.

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _

til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.

En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: "Abba, faðir!"

Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.

Jóhannesarguðspjall 8:12-20

12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."

13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."

14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.

15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.

16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.

17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.

18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."

19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."

20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society