Book of Common Prayer
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
23 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða.
2 Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu.
3 Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: "Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs,
4 hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn."
5 Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt?
6 En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni.
7 Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola.
13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal.
14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.
15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"
16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa
17 og mælti: "Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?" _ og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.
13 Eftir nokkra daga komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn.
14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga, lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: "Hér er fangi nokkur, sem Felix skildi eftir.
15 Þegar ég kom til Jerúsalem, báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan.
16 Ég svaraði þeim, að það væri ekki venja Rómverja að selja fram nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni.
17 Þeir urðu nú samferða hingað, og lét ég engan drátt á verða, heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn.
18 Þegar ákærendurnir komu fram, báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við,
19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann, sem Páll segir lifa.
20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál, hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar.
21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi, þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi, þangað til ég gæti sent hann til keisarans."
22 Agrippa sagði þá við Festus: "Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn." Hinn svaraði: "Á morgun skalt þú hlusta á hann."
23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Var þá Páll leiddur inn að boði Festusar.
24 Festus mælti: "Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi.
25 Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað.
26 Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu.
27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum."
13 Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum, segir einn lærisveina hans við hann: "Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!"
2 Jesús svaraði honum: "Sérðu þessar miklu byggingar? Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
3 Þá er hann sat á Olíufjallinu gegnt helgidóminum, spurðu hann einslega þeir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés:
4 "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?"
5 En Jesús tók að segja þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.
6 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og marga munu þeir leiða í villu.
7 En þegar þér spyrjið hernað og ófriðartíðindi, þá skelfist ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
8 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar.
10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.
11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi.
12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.
13 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
by Icelandic Bible Society