Book of Common Prayer
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
24 Mefíbóset, sonarsonur Sáls, fór og ofan til móts við konung. Hafði hann eigi hirt fætur sína, greitt kamp sinn né þvegið klæði sín frá þeim degi, er konungur fór burt, til þess dags, er hann kom aftur heill á húfi.
25 Og er hann nú kom frá Jerúsalem til móts við konung, sagði konungur við hann: "Hví fórst þú ekki með mér, Mefíbóset?"
26 Hann svaraði: "Minn herra konungur, þjónn minn sveik mig. Því að ég sagði við hann: ,Söðla þú ösnu fyrir mig, svo að ég megi ríða henni og fara með konungi` _ því að þjónn þinn er fótlami.
27 Og hann hefir rægt þjón þinn við minn herra konunginn. En minn herra konungurinn er sem engill Guðs, og gjör nú sem þér líkar.
28 Því að allt ættfólk föður míns átti einskis að vænta af mínum herra konunginum, nema dauðans, en þá tókst þú þjón þinn meðal mötunauta þinna. Hvaða rétt hefi ég þá framar og hvers framar að beiðast af konungi?"
29 Þá sagði konungur við hann: "Hví fjölyrðir þú enn um þetta? Ég segi: Þú og Síba skuluð skipta landinu."
30 Þá sagði Mefíbóset við konung: "Hann má jafnvel taka það allt, fyrst minn herra konungurinn er kominn heim heill á húfi."
31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan.
32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur.
33 Þá mælti konungur við Barsillaí: "Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem."
34 Barsillaí svaraði konungi: "Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem?
35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði?
36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta?
37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!"
38 Þá mælti konungur: "Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér."
39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín.
40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu.
41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: "Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?"
42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: "Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?"
43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: "Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?" Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.
24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.
25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."
26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.
27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.
25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.
2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann
3 að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.
4 Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.
5 "Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."
6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.
7 Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.
8 En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."
9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"
10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.
11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."
12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."
35 Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: "Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?
36 Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
37 Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?" Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann.
38 Í kenningu sinni sagði hann: "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum,
39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.
40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."
41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið.
42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.
43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.
44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína."
by Icelandic Bible Society