Book of Common Prayer
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.
32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.
40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.
44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
24 Davíð var kominn til Mahanaím, þegar Absalon fór yfir Jórdan, og allir Ísraelsmenn með honum.
25 Absalon hafði sett Amasa yfir herinn í stað Jóabs, en Amasa var sonur Ísmaelíta nokkurs, er Jítra hét og gengið hafði inn til Abígal, dóttur Nahas, systur Serúju, móður Jóabs.
26 Ísrael og Absalon settu herbúðir sínar í Gíleaðlandi.
27 En er Davíð kom til Mahanaím, fluttu þeir Sóbí Nahasson frá Rabba, borg Ammóníta, Makír Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí Gíleaðíti frá Rógelím þangað
28 hvílur, ábreiður, skálar og leirker og færðu Davíð og liðinu, sem með honum var, hveiti, bygg, mjöl, bakað korn, baunir, flatbaunir,
29 hunang, rjóma, sauði og osta úr kúamjólk til að eta, því að þeir hugsuðu: "Liðið er orðið hungrað, þreytt og þyrst á eyðimörkinni."
18 Davíð kannaði nú liðið, sem með honum var, og setti yfir þá þúsundhöfðingja og hundraðshöfðingja.
2 Og Davíð skipti liðinu í þrennt. Var þriðjungur undir forustu Jóabs, þriðjungur undir forustu Abísaí Serújusonar, bróður Jóabs, og þriðjungur undir forustu Íttaí frá Gat. Og konungur sagði við liðið: "Ég er fastráðinn í að fara með yður í stríðið."
3 Liðið svaraði: "Þú skalt hvergi fara. Því að þótt vér flýjum, munu þeir eigi hirða um oss, og þótt helmingurinn af oss félli, mundu þeir ekki hirða um oss, því að þú ert sem tíu þúsundir af oss. Er og betra, að þú sért viðbúinn að koma oss til liðs úr borginni."
4 Þá sagði konungur við þá: "Svo vil ég gjöra, sem yður líst." Þá nam konungur staðar öðrumegin við borgarhliðið, en allt liðið hélt af stað, hundruðum og þúsundum saman.
5 En konungur lagði svo fyrir þá Jóab, Abísaí og Íttaí: "Farið vægilega með sveininn Absalon." Og allt liðið heyrði konung bjóða hershöfðingjunum svo um Absalon.
6 Síðan hélt liðið út til bardaga við Ísrael, og hófst orusta í Efraímskógi.
7 Biðu Ísraelsmenn þar ósigur fyrir Davíðs mönnum. Varð þar mikið mannfall á þeim degi: tuttugu þúsund manns.
8 Dreifðist bardaginn þar um allt landið, og varð skógurinn fleiri mönnum að líftjóni heldur en sverðið hafði orðið þann dag.
30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.
23 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: "Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag."
2 En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn.
3 Þá sagði Páll við hann: "Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig."
4 Þeir, sem hjá stóðu sögðu: "Smánar þú æðsta prest Guðs?"
5 Páll svaraði: "Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns."`
6 Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: "Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra."
7 Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka.
8 Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta.
9 Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: "Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?"
10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.
11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: "Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm."
12 Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi hann hungurs.
13 Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá, hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því, fann hann ekkert nema blöð, enda var ekki fíknatíð.
14 Hann sagði þá við tréð: "Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!" Þetta heyrðu lærisveinar hans.
15 Þeir komu til Jerúsalem, og hann gekk í helgidóminn og tók að reka út þá, sem voru að selja þar og kaupa, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna.
16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn.
17 Og hann kenndi þeim og sagði: "Er ekki ritað: ,Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?` En þér hafið gjört það að ræningjabæli."
18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans.
19 Þegar leið að kvöldi, fóru þeir úr borginni.
20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum.
21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: "Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað."
22 Jesús svaraði þeim: "Trúið á Guð.
23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því.
24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.
25 Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. [
26 Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. ]"
by Icelandic Bible Society