Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Síðari Samúelsbók 17:1-23

17 Síðan sagði Akítófel við Absalon: "Ég ætla að velja úr tólf þúsund manns, leggja af stað og veita Davíð eftirför þegar í nótt

og ráðast á hann, meðan hann er þreyttur og ráðþrota, og skjóta honum skelk í bringu. Mun þá allt liðið, sem með honum er, leggja á flótta, en ég mun drepa konunginn einan.

Síðan mun ég leiða aftur allt fólkið til þín, eins og þegar brúður hverfur aftur til manns síns. Það er þó ekki nema einn maður, sem þú vilt feigan, en allur lýðurinn mun hafa frið."

Þetta ráð geðjaðist Absalon vel og öllum öldungum Ísraels.

Og Absalon sagði: "Kallið og á Húsaí Arkíta, svo að vér megum einnig heyra, hvað hann leggur til."

Þá kom Húsaí til Absalons, og Absalon sagði við hann: "Þannig hefir Akítófel talað. Eigum vér að gjöra það, sem hann segir? Ef eigi, þá tala þú!"

Þá sagði Húsaí við Absalon: "Ráð það, er Akítófel að þessu sinni hefir ráðið, er ekki gott."

Og Húsaí sagði: "Þú þekkir föður þinn og menn hans, að þeir eru hinir mestu kappar og grimmir í skapi, eins og birna á mörkinni, sem rænd er húnum sínum. Auk þess er faðir þinn maður vanur bardögum og lætur eigi fyrir berast um nætur hjá liðinu.

Sjá, hann mun nú hafa falið sig í einhverri gryfjunni eða einhvers staðar annars staðar. Ef nokkrir af þeim falla í fyrstu og það spyrst, munu menn segja: ,Lið það, sem fylgir Absalon, hefir beðið ósigur.`

10 Þá mun svo fara, að jafnvel hreystimennið með ljónshjartað mun láta hugfallast, því að allur Ísrael veit, að faðir þinn er hetja og þeir hraustmenni, sem með honum eru.

11 En þetta er mitt ráð: Allur Ísrael frá Dan til Beerseba skal saman safnast til þín, svo fjölmennur sem sandur á sjávarströndu, og sjálfur fer þú meðal þeirra.

12 Og ef vér þá hittum hann einhvers staðar, hvar sem hann nú kann að finnast, þá skulum vér steypa oss yfir hann, eins og dögg fellur á jörðu, og af honum og öllum þeim mönnum, sem með honum eru, skal ekki einn eftir verða.

13 Og ef hann leitar inn í einhverja borg, skal allur Ísrael bera vaði að þeirri borg, og síðan skulum vér draga hana ofan í ána, uns þar finnst ekki einu sinni steinvala."

14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn: "Betra er ráð Húsaí Arkíta en ráð Akítófels!" Því að Drottinn hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon.

15 Þá sagði Húsaí við prestana Sadók og Abjatar: "Það og það hefir Akítófel ráðið Absalon og öldungum Ísraels, og það og það hefi ég ráðið.

16 Sendið því sem skjótast og segið Davíð: ,Lát þú eigi fyrirberast í nótt við vöðin í eyðimörkinni, heldur far þú yfir um, svo að konungur og allt liðið, sem með honum er, tortímist ekki skyndilega."`

17 En Jónatan og Akímaas stóðu við Rógel-lind, og stúlka nokkur var vön að fara og færa þeim tíðindin, en þeir fóru þá jafnan og sögðu Davíð konungi frá, því að þeir máttu ekki láta sjá, að þeir kæmu inn í borgina.

18 En sveinn nokkur sá þá og sagði Absalon frá. Fóru þeir þá báðir brott í skyndi og komu til húss manns nokkurs í Bahúrím, sem átti brunn í húsagarði sínum, og stigu þeir ofan í brunninn,

19 en húsfreyja tók dúk og breiddi yfir brunninn og stráði yfir grjónum, að eigi skyldi á bera.

20 Menn Absalons komu til konunnar í húsið og sögðu: "Hvar eru þeir Akímaas og Jónatan?" Konan svaraði þeim: "Þeir eru farnir yfir ána." Þeir leituðu, en fundu þá ekki, og sneru aftur til Jerúsalem.

21 En er þeir voru burt farnir, stigu Jónatan og Akímaas upp úr brunninum, héldu áfram og fluttu Davíð konungi tíðindin. Og þeir sögðu við Davíð: "Takið yður upp og farið sem skjótast yfir ána, því að þau ráð hefir Akítófel ráðið móti yður."

22 Þá tók Davíð sig upp og allt liðið, sem með honum var, og fóru yfir Jórdan. Og er lýsti af degi, var enginn sá, er ekki hefði farið yfir Jórdan.

23 En er Akítófel sá, að eigi var farið að ráðum hans, söðlaði hann asna sinn, lagði af stað og fór heim til sín í borg sína, ráðstafaði húsi sínu og hengdi sig, og lét þannig líf sitt. Var hann síðan jarðaður hjá föður sínum.

Bréf Páls til Galatamanna 3:6-14

Svo var og um Abraham, "hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað."

Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.

Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: "Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta."

Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.

10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."

11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."

13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."

14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.

Jóhannesarguðspjall 5:30-47

30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.

31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.

32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.

33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.

34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.

35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.

36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.

37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.

38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.

39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,

40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.

41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,

42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.

43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.

44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?

45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.

46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.

47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society