Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 107:33-108:13

33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,

34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.

35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum

36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,

37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.

38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.

39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,

40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,

41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.

42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.

43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

Sálmarnir 33

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Síðari Samúelsbók 16

16 En er Davíð var kominn spölkorn frá hæðinni, kom Síba, sveinn Mefíbósets, í móti honum með tvo söðlaða asna, klyfjaða tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað aldinkökum og vínlegli.

Konungur mælti við Síba: "Hvað ætlar þú að gjöra við þetta?" Síba svaraði: "Asnarnir eru ætlaðir konungsfólkinu til reiðar, brauðin og aldinin til matar þjónustuliðinu og vínið til drykkjar þeim, er örmagnast kunna á eyðimörkinni."

Þá mælti konungur: "Hvar er sonur herra þíns?" Síba svaraði konungi: "Hann er kyrr í Jerúsalem, því að hann hugsaði: ,Í dag mun Ísraels hús fá mér aftur konungsríki föður míns."`

Þá sagði konungur við Síba: "Sjá, allt sem Mefíbóset á, það sé þitt!" Síba mælti: "Ég hneigi mig! Mætti ég jafnan finna náð í augum þínum, minn herra konungur."

Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím, kom þaðan maður af kynþætti Sáls, sem Símeí hét, Gerason. Hann kom bölvandi og ragnandi

og kastaði steinum að Davíð og öllum þjónum Davíðs konungs, en allt fólkið og allir kapparnir gengu til hægri og vinstri hliðar honum.

En Símeí komst svo að orði í formælingum sínum: "Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið!

Nú lætur Drottinn þér í koll koma allt blóð ættar Sáls, í hvers stað þú ert konungur orðinn, og Drottinn hefir gefið konungdóminn í hendur Absalon syni þínum, og nú er ógæfan yfir þig komin, af því að þú ert blóðhundur."

Þá mælti Abísaí Serújuson við konung: "Hví skal þessi dauði hundur formæla mínum herra konunginum? Lát mig fara og stýfa af honum hausinn."

10 En konungur svaraði: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir? Ef hann formælir og ef Drottinn hefir sagt honum: ,Formæl Davíð!` _ hver vogar þá að segja: ,Hví gjörir þú þetta?"`

11 Og Davíð sagði við Abísaí og við alla þjóna sína: "Sjá, fyrst sonur minn, sem út genginn er af lendum mínum, situr um líf mitt, hví þá ekki þessi Benjamíníti? Látið hann í friði og lofið honum að formæla, því að Drottinn hefir sagt honum það.

12 Vera má að Drottinn líti á eymd mína og bæti mér formæling hans í dag með góðu."

13 Síðan fór Davíð og menn hans leiðar sinnar, en Símeí gekk í fjallshlíðinni á hlið við hann og formælti honum í sífellu, kastaði steinum að honum og lét moldarhnausana dynja á honum.

14 Síðan kom konungur og allt fólkið, sem með honum var, uppgefið til Jórdanar og hvíldi sig þar.

15 Absalon og allir Ísraelsmenn komu til Jerúsalem og Akítófel með honum.

16 Og er Húsaí Arkíti, vinur Davíðs, kom til Absalons, sagði Húsaí við hann: "Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!"

17 Þá sagði Absalon við Húsaí: "Er þetta kærleikur þinn til vinar þíns? Hvers vegna fórst þú ekki með vini þínum?"

18 Húsaí sagði þá við Absalon: "Nei, því að þann, sem Drottinn og þessi lýður og allir Ísraelsmenn velja, hans maður vil ég vera, og hjá honum vil ég dveljast.

19 Og í annan stað: Hverjum veiti ég þjónustu? Er það ekki syni hans? Eins og ég hefi veitt föður þínum þjónustu, svo mun ég og veita þér."

20 Þá sagði Absalon við Akítófel: "Leggið nú ráð á, hvað vér skulum gjöra!"

21 Akítófel sagði við Absalon: "Gakk þú inn til hjákvenna föður þíns, sem hann lét eftir verða til þess að gæta hallarinnar. Mun þá allur Ísrael frétta, að þú sért orðinn óþokkaður af föður þínum, og mun þá öllum þínum mönnum vaxa hugur."

22 Þá tjölduðu þeir fyrir Absalon á þakinu, og Absalon gekk inn til hjákvenna föður síns í augsýn alls Ísraels.

23 En þau ráð, er Akítófel réð, þóttu í þá daga eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, _ svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels, bæði hjá Davíð og Absalon.

Postulasagan 22:17-29

17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn

18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.`

19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum.

20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.`

21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu."`

22 Allt að þessu orði hlýddu þeir á hann, en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: "Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!"

23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp,

24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann og hýða hann og kúga hann með því til sagna, svo að hann kæmist að því, fyrir hverja sök þeir gjörðu slík óp að honum.

25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin, sagði Páll við hundraðshöfðingjann, er hjá stóð: "Leyfist yður að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?"

26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta, fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: "Hvað ert þú að gjöra? Maður þessi er rómverskur."

27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: "Seg mér, ert þú rómverskur borgari?" Páll sagði: "Já."

28 Hersveitarforinginn sagði: "Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt." En Páll sagði: "Ég er meira að segja með honum fæddur."

29 Þeir, sem áttu að kúga hann til sagna, viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur, er hann varð þess vís, að það var rómverskur maður, sem hann hafði látið binda.

Markúsarguðspjall 11:1-11

11 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína

og segir við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann.

Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað."`

Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann.

Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?"

Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara.

Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak.

Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum.

Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins!

10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!"

11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society