Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
15 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.
2 Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"
3 þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."
4 Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."
5 Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.
6 Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.
7 Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.
8 Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni."`
9 Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.
10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!"`
11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.
12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.
13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."
14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: "Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi."
15 Þjónar konungs svöruðu honum: "Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir."
16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins.
17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið,
18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs.
27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann
28 og hrópuðu: "Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað."
29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn.
30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst.
31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.
32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.
33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.
34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.
35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,
36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"
32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma.
33 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum.
34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa."
35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."
36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"
37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."
38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"
39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.
40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."
41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.
42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.
44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.
45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."
by Icelandic Bible Society