Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 89

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.

40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.

41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.

42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.

43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.

44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.

45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.

46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?

48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.

49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?

51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,

52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.

Síðari Samúelsbók 13:23-39

23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.

24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."

25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.

26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"

27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.

28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!` _ þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."

29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.

30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.

31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.

32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.

33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."

34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."

35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."

36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.

37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga.

38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár.

39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.

Postulasagan 20:17-38

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.

18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.

19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.

20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum

21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.

22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,

23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.

24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.

26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,

27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.

28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.

29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.

30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.

31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.

32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.

33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.

34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.

35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.

37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.

38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

Markúsarguðspjall 9:42-50

42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.

43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [

44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [

46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti,

48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.

49 Sérhver mun eldi saltast.

50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society