Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 88

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

Sálmarnir 91-92

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.

Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.

11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.

12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.

13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,

að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur

á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.

Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.

Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.

Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.

Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,

en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.

Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.

10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.

11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.

12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.

13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.

14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.

15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.

Síðari Samúelsbók 12:1-14

12 Drottinn sendi Natan til Davíðs, og Natan kom til hans og sagði við hann: "Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur.

Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta,

en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans.

Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans."

Þá reiddist Davíð manninum ákaflega og sagði við Natan: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur,

og lambið skal hann borga sjöfaldlega, fyrst hann gjörði slíkt og hafði enga meðaumkun."

En Natan sagði við Davíð: "Þú ert maðurinn! Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi smurt þig til konungs yfir Ísrael, og ég hefi frelsað þig af hendi Sáls,

og ég gaf þér hús herra þíns og lagði konur herra þíns upp að brjósti þér, og ég hefi fengið þér Ísraels hús og Júda _ og hefði það verið of lítið, mundi ég hafa bætt einhverju við þig.

Hví hefir þú fyrirlitið orð Drottins með því að aðhafast það, sem honum mislíkar? Úría Hetíta hefir þú fellt með sverði. Konu hans hefir þú tekið þér fyrir konu, en sjálfan hann hefir þú myrt með sverði Ammóníta.

10 Fyrir því skal sverðið aldrei víkja burt frá húsi þínu, sakir þess að þú fyrirleist mig og tókst konu Úría Hetíta þér fyrir konu.

11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.

12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."

13 Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.

14 En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja."

Postulasagan 19:21-40

21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: "Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm."

22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu.

23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.

24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu.

25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: "Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.

26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir.

27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni."

28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.

30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.

31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.

32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.

33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.

34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"

35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?

36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.

37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.

38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.

39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.

40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.

Markúsarguðspjall 9:14-29

14 Þegar þeir komu til lærisveinanna, sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá.

15 En um leið og fólkið sá hann, sló þegar felmtri á alla, og þeir hlupu til og heilsuðu honum.

16 Hann spurði þá: "Um hvað eruð þér að þrátta við þá?"

17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: "Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í.

18 Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

19 Jesús svarar þeim: "Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín."

20 Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.

21 Jesús spurði þá föður hans: "Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: "Frá bernsku.

22 Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur."

23 Jesús sagði við hann: "Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir."

24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: "Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni."

25 Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann."

26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: "Hann er dáinn."

27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur.

28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: "Hví gátum vér ekki rekið hann út?"

29 Hann mælti: "Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society