Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 83

83 Ljóð. Asafs-sálmur.

Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!

Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,

þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.

Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"

Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:

Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,

Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.

Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]

10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,

11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.

12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,

13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."

14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.

15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,

16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Sálmarnir 85-86

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.

Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.

Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.

Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.

Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.

Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.

Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.

Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.

10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,

13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.

15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.

16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.

17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.

Síðari Samúelsbók 11

11 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem.

Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur.

Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta."

Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.

En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: "Ég er með barni."

Davíð gjörði þá Jóab boð: "Sendu Úría Hetíta til mín." Og Jóab sendi Úría til Davíðs.

En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi.

Því næst sagði Davíð við Úría: "Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína." Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum.

En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: "Úría er ekki farinn heim til sín." Þá sagði Davíð við Úría: "Þú ert kominn úr ferð, _ hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?"

11 Þá sagði Úría við Davíð: "Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, _ og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki."

12 Þá sagði Davíð við Úría: "Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi." Var Úría þann dag í Jerúsalem.

13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría.

15 Í bréfinu skrifaði hann svo: "Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli."

16 Jóab sat um borgina og skipaði nú Úría þar til orustu, sem hann vissi að hraustir menn voru fyrir.

17 Gjörðu borgarmenn síðan úthlaup og börðust við Jóab. Féllu þá nokkrir af liðinu, af þjónum Davíðs. Þá lét og Úría Hetíti líf sitt.

18 Þá sendi Jóab mann og lét segja Davíð, hvernig farið hefði í orustunni,

19 og hann lagði svo fyrir sendimanninn: "Þegar þú hefir sagt konungi sem greinilegast frá bardaganum,

20 og konungur þá verður reiður og segir við þig: ,Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að þeir mundu skjóta á yður ofan af borgarveggnum?

21 Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?` _ þá skalt þú segja: ,Þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."`

22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: "Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?"

23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: "Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu.

24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."

25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: "Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana` _ og teldu þannig hug í hann."

26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.

27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.

Postulasagan 19:11-20

11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.

12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.

13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."

14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.

15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"

16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.

17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.

18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.

19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.

20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.

Markúsarguðspjall 9:2-13

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,

og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.

Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.

Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"

Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.

11 Og þeir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

12 Hann svaraði þeim: "Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða?

13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society