Book of Common Prayer
70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.
3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.
5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"
6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.
19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
4 Er Ísbóset sonur Sáls frétti, að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael varð óttasleginn.
2 Ísbóset sonur Sáls hafði tvo menn hjá sér, foringja fyrir ránsflokkum. Hét annar þeirra Baana, en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót, af kynþætti Benjamíns, því að Beerót telst með Benjamín.
3 En Beerótbúar voru flúnir til Gittaím, og hafa þeir verið þar sem hjábýlingar fram á þennan dag.
4 Jónatan, sonur Sáls, átti son lama á báðum fótum. Hann var fimm vetra gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan frá Jesreel. Þá tók fóstra hans hann og flýði, en í ofboðinu, er hún flýði, féll hann og varð lami. Hann hét Mefíbóset.
5 Synir Rimmóns frá Beerót, þeir Rekab og Baana, lögðu af stað og komu, þá er heitast var dags, í hús Ísbósets. Hafði hann þá lagt sig um miðdegið.
6 En stúlkan, sem dyranna gætti, hafði verið að hreinsa hveiti, og hafði hana syfjað og var hún sofandi. Þeir Rekab og Baana bróðir hans læddust því inn.
7 Og er þeir komu inn í húsið, þá lá Ísbóset í hvílu sinni í svefnhúsi sínu. En þeir báru vopn á hann og unnu á honum og hjuggu af honum höfuðið. Því næst tóku þeir höfuð hans og héldu áfram alla nóttina veginn yfir Jórdandalinn.
8 Og þeir færðu Davíð í Hebron höfuðið af Ísbóset og mæltu við konunginn: "Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls, óvinar þíns, sem sat um líf þitt. Drottinn hefir nú látið herra mínum, konunginum, verða hefndar auðið á Sál og niðjum hans."
9 Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, þeim sonum Rimmóns frá Beerót, og mælti til þeirra: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:
10 Þann mann, sem færði mér tíðindin: ,Sjá, Sál er dauður!` og hugðist færa mér gleðitíðindi, hann lét ég handtaka og drepa í Siklag og galt honum þann veg sögulaunin.
11 Og þegar illir menn nú hafa myrt saklausan mann í hvílu sinni í hans eigin húsi, skyldi ég þá ekki miklu fremur krefjast blóðs hans af ykkar hendi og afmá ykkur af jörðinni?"
12 Síðan bauð Davíð sveinum sínum að drepa þá. Þeir gjörðu svo og hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp hjá tjörninni í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.
25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá.
26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum.
27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna.
28 Þá kallaði Páll hárri raustu: "Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!"
29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi.
30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: "Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?"
31 En þeir sögðu: "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."
32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans.
33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.
34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.
35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: "Lát þú menn þessa lausa."
36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: "Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði."
37 En Páll sagði við þá: "Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út."
38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir,
39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.
40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.
7 Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem.
2 Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum.
3 En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna.
4 Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.
5 Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: "Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?"
6 Jesús svarar þeim: "Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
7 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.
8 Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna."
9 Enn sagði hann við þá: "Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.
10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,
12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.
13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt."
14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið.
15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." [
16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]
17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.
18 Og hann segir við þá: "Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?
19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna." Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.
20 Og hann sagði: "Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.
21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,
22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.
23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."
by Icelandic Bible Society