Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
17 Dag nokkurn sagði Ísaí við Davíð son sinn: "Tak þú efu af þessu bakaða korni handa bræðrum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu bræðrum þínum þetta í herbúðirnar.
18 Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa hersveitarforingjanum, og fáðu að vita, hvernig bræðrum þínum líður, og komdu með jarteikn frá þeim.
19 En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista."
20 Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp.
21 Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri.
22 Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði.
23 En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn _ hann hét Golíat, Filisti frá Gat _ úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á.
24 En er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir.
25 Og einn Ísraelsmanna sagði: "Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Ísrael. Hverjum þeim, sem fellir hann, vill konungurinn veita mikil auðæfi og gefa honum dóttur sína og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Ísrael."
26 Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: "Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Filista þennan og rekur svívirðing af Ísrael? Því að hver er þessi óumskorni Filisti, er dirfist að smána herfylkingar lifanda Guðs?"
27 Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: "Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann."
28 En er Elíab, elsti bróðir hans, heyrði, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: "Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann."
29 Davíð svaraði: "Nú, hvað hefi ég þá gjört? Var mér ekki frjálst að spyrja?"
30 Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið.
34 Þá tók Pétur til máls og sagði: "Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit.
35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.
36 Orðið, sem hann sendi börnum Ísraels, þá er hann flutti fagnaðarboðin um frið fyrir Jesú Krist, sem er Drottinn allra, þekkið þér.
37 Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði.
38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.
39 Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi.
40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast,
41 ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum.
42 Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.
43 Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna."
44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.
45 Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana,
46 því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.
47 Þá mælti Pétur: "Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér."
48 Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.
1 Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.
2 Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.
3 Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
4 Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
5 og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.
6 En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.
7 Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.
8 Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."
9 Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.
10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.
11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,
13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.
by Icelandic Bible Society