Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146-147

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Sálmarnir 111-113

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Fyrri Samúelsbók 14:36-45

36 Og Sál mælti: "Vér skulum fara á eftir Filistum í nótt og ræna meðal þeirra, þar til er birtir af degi, og engan af þeim láta eftir verða." Þeir sögðu: "Gjör þú allt, sem þér gott þykir." En presturinn sagði: "Vér skulum ganga hér fram fyrir Guð."

37 Sál gekk þá til frétta við Guð: "Á ég að fara á eftir Filistum? Munt þú gefa þá í hendur Ísrael?" En hann svaraði honum engu þann dag.

38 Þá sagði Sál: "Gangið hingað, allir höfðingjar fólksins, og grennslist eftir og komist að raun um, hver drýgt hefir þessa synd í dag.

39 Því að svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er veitt hefir Ísrael sigur, þó að það væri Jónatan sonur minn, sem hefði drýgt hana, þá skyldi hann láta lífið." En enginn svaraði honum af öllu fólkinu.

40 Þá sagði hann við allan Ísrael: "Verið þér öðrumegin, en ég og Jónatan sonur minn skulum vera hinumegin." Lýðurinn sagði við Sál: "Gjör þú sem þér gott þykir."

41 Þá mælti Sál: "Drottinn, Ísraels Guð, hví svaraðir þú ekki þjóni þínum í dag? Ef þessi misgjörð hvílir á mér eða Jónatan syni mínum, Drottinn, Ísraels Guð, þá lát þú úrím koma upp, en ef hún hvílir á lýð þínum Ísrael, þá lát þú túmmím koma upp." Þá kom upp hlutur Jónatans og Sáls, en fólkið gekk undan.

42 Og Sál mælti: "Hlutið með mér og Jónatan syni mínum!" Kom þá upp hlutur Jónatans.

43 Og Sál sagði við Jónatan: "Segðu mér, hvað hefir þú gjört?" Þá sagði Jónatan honum frá því og mælti: "Ég bragðaði aðeins ögn af hunangi á stafsendanum, sem ég hafði í hendinni. Sjá, hér er ég, fyrir það á ég að láta lífið?"

44 Sál svaraði: "Guð gjöri við mig það, er hann vill: lífið verður þú að láta, Jónatan!"

45 En lýðurinn sagði við Sál: "Á Jónatan að láta lífið, hann sem unnið hefir þennan mikla sigur í Ísrael? Fjarri sé það! Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt höfuðhár hans falla til jarðar, því að með Guðs hjálp hefir hann unnið í dag." Og fólkið leysti Jónatan út undan lífláti.

Bréf Páls til Rómverja 5:1-11

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.

Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.

En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,

en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.

En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.

Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.

Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _

En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.

Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.

10 Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.

11 Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.

Matteusarguðspjall 22:1-14

22 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:

"Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.

Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.

Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.`

En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,

en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.

Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.

Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.

Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.`

10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.

11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.

12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað.

13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`

14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society