Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.
2 Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.
3 Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.
4 Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.
5 Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins.
6 Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.
7 Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda.
8 Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.
18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"
2 Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra
3 og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.
4 Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.
5 Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.
6 En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.
7 Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.
8 Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.
9 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.
10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [
11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.]
12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er?
13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá.
14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.
by Icelandic Bible Society