Book of Common Prayer
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]
6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]
10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.
12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.
12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."
15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?
18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.
22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.
23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,
24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."
25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.
33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.
36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!
11 Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér.
12 Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
13 Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
14 Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því.
15 Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.
16 Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
17 En ef hjarta þitt gjörist fráhverft og þú verður óhlýðinn og lætur tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og dýrka þá,
18 þá boða ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. Þér munuð þá eigi lifa mörg árin í landi því, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.
19 Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa,
20 með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.
11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.
2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.
3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.
4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.
5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.
6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.
7 Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?
8 Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,
9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.
10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.
11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.
12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.
13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.
14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.
15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.
16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið.
17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku.
18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo,
19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð.
20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið.
21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.
19 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.
2 En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.
3 Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.
4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.
5 Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: "Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu."
6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.
7 Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: "Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni."
8 En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: "Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur."
9 Jesús sagði þá við hann: "Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur.
10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það."
by Icelandic Bible Society