Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
18 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland: ,Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar`?
3 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael.
4 Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.
19 Og þá segið þér: ,Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns?` Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda.
20 Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum.
21 Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja.
22 Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda.
23 Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega _ segir Drottinn Guð _ og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi?
24 En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja.
25 En er þér segið: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt?
26 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja.
27 En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu.
28 Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja.
29 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt?
30 Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar.
31 Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn?
32 Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, _ segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."
18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.
19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.
20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,
21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."
22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.
23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.
24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.
25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.
26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.
27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.
28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"
27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."
28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."
29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"
30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.
31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.
32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.
33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,
34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.
35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`
36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"
37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."
by Icelandic Bible Society