Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 132

132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,

hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:

"Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,

eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,

fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."

Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.

Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.

Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.

Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.

10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.

11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.

12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."

13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:

14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.

15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,

16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.

17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.

18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."

Jesaja 11:1-10

11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.

Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

10 Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.

Bréfið til Hebrea 2:11-18

11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,

12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.

13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.

14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,

15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.

16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.

17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.

18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society