Book of Common Prayer
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.
3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!
4 Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!
5 Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]
6 Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!
7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]
8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:
9 "Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."
10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.
11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.
44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.
3 Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.
4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.
5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.
6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.
7 Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,
8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.
9 Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]
10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.
11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.
12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.
13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.
14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,
17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.
18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.
19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,
20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.
21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,
22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.
24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!
25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?
26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.
27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa
2 hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.
3 Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður.
4 Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra,
5 vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu,
6 sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.
7 Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað.
8 Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður.
9 Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans,
10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.
11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði
12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.
14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.
6 En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu.
2 Þá sögðu farísear nokkrir: "Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
3 Og Jesús svaraði þeim: "Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans?
4 Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir."
5 Og hann sagði við þá: "Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."
6 Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd.
7 En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann.
8 En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: "Statt upp, og kom hér fram." Og hann stóð upp og kom.
9 Jesús sagði við þá: "Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?"
10 Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil.
11 En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú.
by Icelandic Bible Society