Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148-150

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Sálmarnir 114-115

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Daníel 4:1-18

Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: "Gangi yður allt til gæfu!

Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig.

Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.

Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni.

Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.

Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins.

Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans.

En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn:

Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða.

10 Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar: Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt.

11 Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar.

12 Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því.

13 Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni.

14 Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess.

15 Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar.

16 Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða.

17 Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.`

18 Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða."

Fyrra almenna bréf Péturs 4:7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Jóhannesarguðspjall 21:15-25

15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."

16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)

17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`

18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"

20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.

21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."

22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.

23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."

24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.

25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society