Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146-149

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

Esekíel 37:1-14

37 Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum.

Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?" Ég svaraði: "Drottinn Guð, þú veist það!"

Þá sagði hann við mig: "Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins!

Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við.

Og ég set sinar á yður og læt hold utan um yður og dreg þar hörund yfir og læt lífsanda í yður, og þér skuluð lifna við, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

Þá talaði ég af guðmóði, eins og mér var boðið. Og er ég mælti af guðmóði, kom þytur og skrjáf heyrðist, og beinin færðust saman, hvert að öðru.

Og ég sá, hversu sinar komu á beinin og hold óx á og hörund dróst þar yfir, en enginn lífsandi var í þeim.

Þá sagði hann við mig: "Mæl þú í guðmóði til lífsandans, mæl þú í guðmóði, mannsson, og seg við lífsandann: Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við."

10 Ég talaði nú í guðmóði, eins og hann hafði skipað mér. Kom þá lífsandi í þá, svo að þeir lifnuðu við og risu á fætur. Var það afar mikill fjöldi.

11 Og hann sagði við mig: "Mannsson, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Sjá, þeir segja: ,Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!`

12 Mæl því í guðmóði og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég vil opna grafir yðar, og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland,

13 til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn, þegar ég opna grafir yðar og læt yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín.

14 Og ég vil láta anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. Ég hefi talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn."

Postulasagan 3:11-26

11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon.

12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?

13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.

14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.

15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.

16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.

17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar.

18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða.

19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.

20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús.

21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.

22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.

23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.`

24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga.

25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.`

26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni."

Jóhannesarguðspjall 15:12-27

12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.

13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.

15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.

16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.

17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.

19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.

20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.

21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.

22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.

23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.

24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.

25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`

26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.

27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society