Book of Common Prayer
78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.
3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,
8 og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.
9 Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.
10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.
11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.
12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.
13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.
14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.
15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,
16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.
17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.
18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust
19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?
20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"
21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,
22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.
23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;
25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.
26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,
28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.
29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.
30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,
31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.
32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.
33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.
34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði
35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.
36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.
37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.
38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.
39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.
40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.
41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,
43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.
44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.
45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.
46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.
49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.
50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.
52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.
53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.
54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.
55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.
56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.
57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.
60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,
61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.
62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.
64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.
65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.
66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.
67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,
68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.
69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.
70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.
71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.
72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.
59 Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki.
2 Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.
3 Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.
4 Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir.
5 Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.
6 Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra.
7 Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra.
8 Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.
9 Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.
10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.
11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.
12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.
13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.
14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.
15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar
2 Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.
4 Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði
5 er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.
6 Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.
7 Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.
8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.
9 Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,
10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.
12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.
13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.
14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.
42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.
43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [
44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]
45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [
46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]
47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti,
48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.
49 Sérhver mun eldi saltast.
50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli."
by Icelandic Bible Society