Book of Common Prayer
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.
10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.
20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.
22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.
24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.
19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.
20 Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.
21 Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.
22 Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.
23 Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.
24 "Hjá Drottni einum," mun um mig sagt verða, "er réttlæti og vald." Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.
25 Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.
6 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.
2 "Heiðra föður þinn og móður," _ það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti:
3 "til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni."
4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.
5 Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur.
6 Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga.
7 Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn.
8 Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.
9 Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.
35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"
36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.
37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.
38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"
39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.
40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"
41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."
by Icelandic Bible Society