Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.
2 Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.
3 Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.
4 Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.
5 Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:
6 Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar
7 til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.
8 Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9 Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.
10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!
11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!
12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!
13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:
14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.
15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.
16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.
17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."
3 Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.
2 Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:
3 Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.
4 Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.
5 Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:
6 Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.
7 Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.
8 Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists
9 og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.
10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.
11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.
12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.
13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.
13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim.
14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.
16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: "Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum."
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: "Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?"
19 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað.
20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.
22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi."
by Icelandic Bible Society