Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20-21

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

Sálmarnir 23

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Jesaja 25:1-9

25 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.

Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.

Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.

Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir,

glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.

Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.

Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.

Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.

Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"

Opinberun Jóhannesar 1:9-20

Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.

10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli,

11 er sagði: "Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu."

12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur,

13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans.

14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi.

15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna.

16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.

17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti

18 og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.

19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.

20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.

Jóhannesarguðspjall 7:53-8:11

53 [Nú fór hver heim til sín.

En Jesús fór til Olíufjallsins.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra

og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.

Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"

Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."

Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.

Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.

10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"

11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society