Book of Common Prayer
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
13 Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar,
14 sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.
15 Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: "Hver sér oss? Hver veit af oss?"
16 Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: "Hann hefir eigi búið mig til," og smíðin geti sagt um smiðinn: "Hann kann ekki neitt?"
17 Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.
18 Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.
19 Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael.
20 Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka,
21 þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.
22 Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna.
23 Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.
24 Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.
22 Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.
23 Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.
24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.
25 Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga _ því að nótt verður þar ekki.
26 Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna.
27 Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.
22 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.
2 Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
3 Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.
4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.
5 Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.
39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda.
40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu.
41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda
42 og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns.
43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín?
44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.
45 Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni."
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
56 En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.
by Icelandic Bible Society