Book of Common Prayer
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
10 Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.
11 Á þeim degi mun Drottinn útrétta hönd sína í annað sinn til þess að endurkaupa þær leifar fólks síns, sem eftir eru í Assýríu, Norður-Egyptalandi, Suður-Egyptalandi, Blálandi, Elam, Babýloníu, Hamat og á eyjum hafsins.
12 Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins.
13 Þá mun öfund Efraíms hverfa og fjandskapur Júda líða undir lok. Efraím mun ekki öfundast við Júda og Júda ekki fjandskapast við Efraím.
14 Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir.
15 Og Drottinn mun þurrka upp voga Egyptahafs og bregða hendi sinni yfir fljótið í stríðum stormi og skipta því í sjö kvíslir, svo að yfir má ganga með skó á fótum.
16 Og það skal verða brautarvegur fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýríu, eins og var fyrir Ísrael, þá er hann fór af Egyptalandi.
11 Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað.
12 Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.
13 Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.
14 Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.
15 Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.
21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.
2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.
3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.
4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."
5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."
6 Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.
7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.
8 En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."
5 Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.
6 Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.
7 En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.
8 En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,
9 að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.
10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.
11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.
12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.
13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.
14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.
15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.
16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.
17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."
18 Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."
19 En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn.
20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."
21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu.
22 En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram.
23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.
24 En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði:
25 "Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna."
by Icelandic Bible Society