Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 61-62

61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.

Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.

Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]

Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.

Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.

Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.

62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?

Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.

Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]

10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.

11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."

13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.

Sálmarnir 112

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

Sálmarnir 115

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Jesaja 11:1-9

11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.

Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

Opinberun Jóhannesar 20:1-10

20 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.

Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.

Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.

Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.

En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan.

Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.

Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu.

Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins.

Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim.

10 Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.

Jóhannesarguðspjall 5:30-47

30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.

31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.

32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.

33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.

34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.

35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.

36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.

37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.

38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.

39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,

40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.

41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,

42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.

43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.

44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?

45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.

46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.

47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society