Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 40

40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.

Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.

Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.

Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.

Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.

Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!

11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.

12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.

13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.

15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.

17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"

18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!

Sálmarnir 54

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jesaja 10:5-19

Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra.

Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum.

En hann skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir.

Hann segir: "Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?

Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus?

10 Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu,

11 já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!"

12 En þegar Drottinn hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans,

13 því að hann hefir sagt: "Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra.

14 Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst."

15 Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré.

16 Fyrir því mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál.

17 Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum

18 og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp.

19 Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp.

Síðara almenna bréf Péturs 2:17-22

17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur.

18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.

19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.

20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.

21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.

22 Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: "Hundur snýr aftur til spýju sinnar," og: "Þvegið svín veltir sér í sama saur."

Matteusarguðspjall 11:2-15

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

"Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.

Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."

Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?

Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.

Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.

10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.

11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.

12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.

13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.

14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.

15 Hver sem eyru hefur, hann heyri.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society