Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Jesaja 6

Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.

Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."

Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.

Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."

Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng,

og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."

Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"

Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!

10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."

11 Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?" Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."

12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.

13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.

Síðara bréf Páls til Þess 1

Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem lifa í Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Skylt er oss, bræður, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir yður, því að trú yðar eykst stórum og kærleiki yðar allra hvers til annars fer vaxandi.

Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið.

Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir.

Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja.

En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns.

Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.

Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,

10 á þeim degi, er hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu og hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið. Og þér hafið trúað þeim vitnisburði, sem vér fluttum yður.

11 Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs,

12 svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists.

Jóhannesarguðspjall 7:53-8:11

53 [Nú fór hver heim til sín.

En Jesús fór til Olíufjallsins.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra

og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.

Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"

Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."

Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.

Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.

10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"

11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society