Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 107:33-108:13

33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,

34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.

35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum

36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,

37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.

38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.

39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,

40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,

41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.

42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.

43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

Sálmarnir 33

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Malakí 3:13-4:5

13 Hörð eru ummæli yðar um mig _ segir Drottinn. Og þér spyrjið: "Hvað höfum vér þá sagt vor í milli um þig?"

14 Þér segið: "Það er til einskis að þjóna Guði, eða hvaða ávinning höfum vér af því haft, að vér varðveittum boðorð hans og gengum í sorgarbúningi fyrir augliti Drottins allsherjar?

15 Fyrir því teljum vér nú hina hrokafullu sæla. Þeir þrifust eigi aðeins vel, þá er þeir höfðu guðleysi í frammi, heldur freistuðu þeir og Guðs, og sluppu óhegndir."

16 Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.

17 Þeir skulu vera mín eign _ segir Drottinn allsherjar _ á þeim degi, sem ég hefst handa, og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.

18 Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.

Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim _ segir Drottinn allsherjar _ svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.

En yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu,

og þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, _ á þeim degi er ég hefst handa _ segir Drottinn allsherjar.

Munið eftir lögmáli Móse þjóns míns, þess er ég á Hóreb fól setninga og ákvæði fyrir allan Ísrael.

Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

Hið almenna bréf Jakobs 5:13-19

13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.

14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum.

15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.

16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

17 Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði.

18 Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.

19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,

Lúkasarguðspjall 18:9-14

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra:

10 "Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.

12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.`

13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!`

14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society