Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
2 Og nú út gengur þessi viðvörun til yðar, þér prestar:
2 Ef þér hlýðið ekki og látið yður ekki um það hugað að gefa nafni mínu dýrðina _ segir Drottinn allsherjar _, þá sendi ég yfir yður bölvunina og sný blessunum yðar í bölvun, já ég hefi þegar snúið þeim í bölvun, af því að þér látið yður ekki um það hugað.
3 Sjá, ég hegg af yður arminn og strái saur framan í yður, saurnum frá hátíðafórnunum, og varpa yður út til hans.
4 Og þér munuð viðurkenna, að ég hefi sent yður þessa viðvörun, til þess að sáttmáli minn við Leví mætti haldast _ segir Drottinn allsherjar.
5 Sáttmáli minn var við hann, líf og hamingju veitti ég honum, lotningarfullan ótta, svo að hann óttaðist mig og bæri mikla lotningu fyrir nafni mínu.
6 Sönn fræðsla var í munni hans og rangindi fundust ekki á vörum hans. Í friði og ráðvendni gekk hann með mér, og mörgum aftraði hann frá misgjörðum.
7 Því að varir prestsins eiga að varðveita þekking, og fræðslu leita menn af munni hans, því að hann er sendiboði Drottins allsherjar.
8 En þér hafið vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví _ segir Drottinn allsherjar.
9 Fyrir því hefi ég og komið yður í fyrirlitning og óvirðing hjá gjörvöllum lýðnum, af því að þér gætið ekki minna vega og eruð hlutdrægir við fræðsluna.
10 Eigum vér ekki allir hinn sama föður? Hefir ekki einn Guð skapað oss? Hvers vegna breytum vér þá sviksamlega hver við annan og vanhelgum sáttmála feðra vorra?
11 Júda hefir gjörst trúrofi og svívirðingar viðgangast í Ísrael og í Jerúsalem, því að Júda hefir vanhelgað helgidóm Drottins, sem hann elskar, og gengið að eiga þær konur, sem trúa á útlenda guði.
12 Drottinn afmái fyrir þeim manni, er slíkt gjörir, kæranda og verjanda úr tjöldum Jakobs og þann er framber fórnargjafir fyrir Drottin allsherjar.
13 Í öðru lagi gjörið þér þetta: Þér hyljið altari Drottins með tárum, með gráti og andvörpunum, þar sem eigi getur framar komið til mála, að hann líti vingjarnlega á fórnirnar né taki á móti velþóknanlegum gjöfum af yðar hendi.
14 Þér segið: "Hvers vegna?" _ Af því að Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli.
15 Hefir ekki einn og hinn sami gefið oss lífið og viðhaldið því? Og hvað heimtar sá hinn eini? Börn sem heyra Guði til. Gætið yðar því í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar.
16 Því að ég hata hjónaskilnað _ segir Drottinn, Ísraels Guð, _ og þann sem hylur klæði sín glæpum _ segir Drottinn allsherjar. Gætið yðar því í huga yðar og bregðið aldrei trúnaði.
13 Heyrið, þér sem segið: "Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!" _
14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.
15 Í stað þess ættuð þér að segja: "Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað."
16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.
17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.
5 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.
2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,
3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.
4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.
5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.
6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.
20 Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.
21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."
22 Og hann sagði við lærisveinana: "Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá.
23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því.
24 Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum.
25 En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð.
26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins:
27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum.
28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu.
29 En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum.
30 Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.
31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur.
32 Minnist konu Lots.
33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf.
34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [
36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]"
37 Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?" En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."
by Icelandic Bible Society