Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 101

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

Sálmarnir 109:1-30

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

Sálmarnir 119:121-144

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.

130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.

132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.

133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.

134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.

135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.

136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Malakí 1:1

Spádómur. Orð Drottins til Ísraels fyrir munn Malakí.

Malakí 1:6-14

Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? _ segir Drottinn allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt. Þér spyrjið: "Með hverju óvirðum vér nafn þitt?"

Þér berið fram óhreina fæðu á altari mitt. Og enn getið þér spurt: "Með hverju ósæmum vér þig?" þar sem þér þó segið: "Borð Drottins er lítils metandi!"

Og þegar þér færið fram blinda skepnu til fórnar, þá kallið þér það ekki saka, og þegar þér færið fram halta eða sjúka skepnu, þá kallið þér það ekki saka. Fær landstjóra þínum það, vit hvort honum geðjast þá vel að þér eða hvort hann tekur þér vel! _ segir Drottinn allsherjar.

Og nú, blíðkið Guð, til þess að hann sýni oss líknsemi. Yður er um þetta að kenna. Getur hann þá tekið nokkrum yðar vel? _ segir Drottinn allsherjar.

10 Sæmra væri, að einhver yðar lokaði musterisdyrunum, svo að þér tendruðuð ekki eld til ónýtis á altari mínu. Ég hefi enga velþóknun á yður _ segir Drottinn allsherjar, og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi.

11 Frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar er nafn mitt mikið meðal þjóðanna, og alls staðar er nafni mínu fórnað reykelsi og hreinni matfórn, því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna _ segir Drottinn allsherjar.

12 En þér vanhelgið það, með því að þér segið: "Borð Drottins er óhreint, og það sem af því fellur oss til fæðslu, er einskis vert."

13 Og þér segið: "Sjá, hvílík fyrirhöfn!" og fyrirlítið það, _ segir Drottinn allsherjar _, og þér færið fram það sem rænt er og það sem halt er og það sem sjúkt er og færið það í fórn. Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi? _ segir Drottinn.

14 Bölvaðir veri þeir svikarar, er eiga hvatan fénað í hjörð sinni og gjöra heit, en fórna síðan Drottni gölluðu berfé! Því að ég er mikill konungur, _ segir Drottinn allsherjar _, og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.

Hið almenna bréf Jakobs 3:13-4:12

13 Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.

14 En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.

15 Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.

16 Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.

17 En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.

18 En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.

Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?

Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.

Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!

Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.

Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"

En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."

Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.

Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.

Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.

10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.

11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari.

12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?

Lúkasarguðspjall 17:11-19

11 Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu.

12 Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar,

13 hófu upp raust sína og kölluðu: "Jesús, meistari, miskunna þú oss!"

14 Er hann leit þá, sagði hann við þá: "Farið og sýnið yður prestunum." Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir.

15 En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu.

16 Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji.

17 Jesús sagði: "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu?

18 Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?"

19 Síðan mælti Jesús við hann: "Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society