Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Sálmarnir 119:73-96

73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.

74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.

75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.

76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.

77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.

78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.

79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.

80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.

81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.

82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?

83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.

84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?

85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.

86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.

87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.

88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 16:1-11

16 Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: "Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina."

Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess.

Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.

Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði.

Og ég heyrði engil vatnanna segja: "Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi.

Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess."

Og ég heyrði altarið segja: "Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir."

Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi.

Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.

10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl.

11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.

Lúkasarguðspjall 13:10-17

10 Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni.

11 Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp.

12 Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!"

13 Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð.

14 En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: "Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi."

15 Drottinn svaraði honum: "Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns?

16 En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?"

17 Við þessi orð hans urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir, en allur lýður fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum, er hann gjörði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society