Book of Common Prayer
50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]
7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,
10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.
11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.
12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?
14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.
15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."
16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,
2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
7 Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,
8 en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.
9 Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.
10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.
11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.
12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."
13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið.
14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins.
15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum.
16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér.
17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.
53 Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt
54 og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.
12 Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: "Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.
2 Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.
3 Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi.
4 Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört.
5 Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.
6 Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði.
7 Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
8 En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs.
9 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.
10 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið.
11 Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja.
12 Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber."
by Icelandic Bible Society