Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 41

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 11:1-14

11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.

Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.

Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."

Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.

Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.

Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.

Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.

Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.

Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.

10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.

11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.

12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.

13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.

14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.

Lúkasarguðspjall 11:14-26

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn.

15 En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana."

16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.

18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls?

19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á,

22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.`

25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt,

26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society