Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 18

18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.

Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,

reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.

13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.

14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.

45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.

46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,

48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,

49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

Jónas 3-4

Og orð Drottins kom til Jónasar annað sinn, svo hljóðandi:

"Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og flyt henni þann boðskap, er ég býð þér."

Þá lagði Jónas af stað og fór til Níníve, eins og Drottinn hafði boðið honum. En Níníve var geysimikil borg, þrjár dagleiðir á lengd.

Og Jónas hóf göngu sína inn í borgina eina dagleið, prédikaði og sagði: "Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð."

En Nínívemenn trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk, bæði ungir og gamlir.

Og er þetta barst til konungsins í Níníve, þá stóð hann upp úr hásæti sínu, lagði af sér skikkju sína, huldi sig hærusekk og settist í ösku.

Og hann lét gjöra heyrinkunna í Níníve svolátandi skipun: "Samkvæmt boði konungs og vildarmanna hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu nokkurs neyta. Þeir skulu hvorki á gras ganga né vatn drekka,

heldur skulu þeir hylja sig hærusekk, bæði menn og skepnur, og hrópa til Guðs ákaflega og láta hver og einn af sinni vondu breytni og af þeim rangindum, er þeir hafa um hönd haft.

Hver veit nema Guði kunni að snúast hugur og hann láti sig iðra þessa og láti af sinni brennandi reiði, svo að vér förumst ekki."

10 En er Guð sá gjörðir þeirra, að þeir létu af illri breytni sinni, þá iðraðist Guð þeirrar ógæfu, er hann hafði hótað að láta yfir þá koma, og lét hana ekki fram koma.

Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður.

Og hann bað til Drottins og sagði: "Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda.

Tak nú, Drottinn, önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa."

En Drottinn sagði: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?"

Því næst fór Jónas út úr borginni og bjóst um fyrir austan borgina. Þar gjörði hann sér laufskála og settist undir hann í forsælunni og beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af.

Þá lét Drottinn Guð rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn, og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum.

En næsta dag, þegar morgunroðinn var á loft kominn, sendi Guð orm, sem stakk rísínusrunninn, svo að hann visnaði.

Og er sól var upp komin, sendi Guð brennheitan austanvind, og skein sólin svo heitt á höfuð Jónasi, að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: "Mér er betra að deyja en lifa!"

Þá sagði Guð við Jónas: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?" Hann svaraði: "Það er rétt að ég reiðist til dauða!"

10 En Drottinn sagði: "Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, sem þú hefir ekkert fyrir haft og ekki upp klakið, sem óx á einni nóttu og hvarf á einni nóttu.

Postulasagan 27:27-44

27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.

28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.

29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.

30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.

31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast."

32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.

33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.

34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér."

35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.

36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.

38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.

39 Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu.

40 Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar.

41 Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu.

42 Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi.

43 En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands,

44 en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.

Lúkasarguðspjall 9:18-27

18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"

19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."

20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."

21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum

22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."

23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.

24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.

25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?

26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.

27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society