Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
3 Ég sagði: Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er?
2 En þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra.
3 Þeir eta hold þjóðar minnar, þeir flá skinnið af þeim og brjóta bein þeirra, hluta þau sundur eins og steik í potti, eins og kjöt á suðupönnu.
4 Þá munu þeir hrópa til Drottins, en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft.
5 Svo mælir Drottinn til spámannanna, sem leitt hafa þjóð mína afvega: Þeir boða hamingju meðan þeir hafa nokkuð tanna milli, en segja þeim stríð á hendur, er ekki stingur neinu upp í þá.
6 Fyrir því skal sú nótt koma, að þér sjáið engar sýnir, og það myrkur, að þér skuluð engu spá. Sólin skal ganga undir fyrir spámönnunum og dagurinn myrkvast fyrir þeim.
7 Þeir sem sjá sjónir, skulu þá blygðast sín og spásagnamennirnir fyrirverða sig. Þeir munu allir hylja kamp sinn, því að ekkert svar kemur frá Guði.
8 Ég þar á móti er fullur af krafti, af anda Drottins, og af rétti og styrkleika, til þess að boða Jakob misgjörð hans og Ísrael synd hans.
24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.
2 Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.
3 Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.
4 En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.
5 Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.
6 Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.
8 Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."
9 Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.
10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.
11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.
12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.
13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.
14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.
15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.
16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.
17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.
18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.
19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.
20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.
21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`
22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."
23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.
36 Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs.
37 En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum,
38 nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.
39 Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: "Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug."
40 Jesús sagði þá við hann: "Símon, ég hef nokkuð að segja þér." Hann svaraði: "Seg þú það, meistari."
41 "Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu.
42 Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?"
43 Símon svaraði: "Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp." Jesús sagði við hann: "Þú ályktaðir rétt."
44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: "Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.
45 Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom.
46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.
47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið."
48 Síðan sagði hann við hana: "Syndir þínar eru fyrirgefnar."
49 Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: "Hver er sá, er fyrirgefur syndir?"
50 En hann sagði við konuna: "Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði."
by Icelandic Bible Society