Book of Common Prayer
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.
17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.
23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.
10 Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt. Því meiri sem ávextir hans urðu, því fleiri ölturu reisti hann. Að sama skapi sem velmegun landsins jókst, prýddu þeir merkissteinana.
2 Hjarta þeirra var óheilt, fyrir því skulu þeir nú gjöld taka. Hann mun sjálfur rífa niður ölturu þeirra, brjóta sundur merkissteina þeirra.
3 Já, þá munu þeir segja: "Vér höfum engan konung, því að vér höfum ekki óttast Drottin. Og konungurinn, hvað getur hann gjört fyrir oss?"
4 Þeir tala hégómaorð, sverja meinsæri, gjöra sáttmála, til þess að rétturinn vaxi eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri.
5 Samaríubúar munu verða skelfingu lostnir út af kálfinum í Betaven, já, lýðurinn mun dapur verða út af honum, enn fremur hofgoðarnir, sem hlökkuðu yfir honum, því að dýrð hans er horfin út í buskann.
6 Jafnvel sjálfur hann mun fluttur verða til Assýríu sem gjöf handa stórkonunginum. Efraím mun hljóta skömm af og Ísrael fyrirverða sig fyrir ráðagjörð sína.
7 Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni.
8 Óheillahæðirnar skulu eyddar verða, þar sem Ísrael syndgaði, þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á ölturum þeirra. Og þá munu þeir segja við fjöllin: "Hyljið oss!" og við hálsana: "Hrynjið yfir oss!"
9 Síðan á Gíbeu-dögum hefir þú syndgað, Ísrael! Þarna standa þeir enn! Hvort mun stríðið gegn glæpamönnunum ná þeim í Gíbeu?
10 Nú vil ég refsa þeim eftir vild minni. Þjóðir skulu saman safnast móti þeim til þess að refsa þeim fyrir báðar misgjörðir þeirra.
11 Efraím er eins og vanin kvíga, sem ljúft er að þreskja. Að vísu hefi ég enn hlíft hinum fagra hálsi hennar, en nú vil ég beita Efraím fyrir, Júda skal plægja, Jakob herfa.
12 Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut.
13 Þér hafið plægt guðleysi, uppskorið ranglæti, etið ávöxtu lyginnar. Þú reiddir þig á vagna þína og á fjölda kappa þinna,
14 því skal og hergnýr rísa gegn mönnum þínum og virki þín skulu öll eydd verða, eins og þegar Salman eyddi Betarbel á ófriðartíma, þá er mæðurnar voru rotaðar ásamt börnunum.
15 Eins mun hann með yður fara, Ísraelsmenn, sökum yðar miklu vonsku. Í dögun mun Ísraelskonungur afmáður verða.
37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?
38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."
39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."
40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:
22 "Bræður og feður, hlustið á það, sem ég ætla að flytja yður mér til varnar."
2 En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram:
3 "Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.
4 Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur.
5 Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað.
6 En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.
7 Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`
8 Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`
9 Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.
10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`
11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.
12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,
13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.
14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.
15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.
16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`
12 En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs.
13 Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula.
14 Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus,
15 Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari,
16 og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari.
17 Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar,
18 er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum.
19 Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.
20 Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: "Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.
21 Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja.
22 Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.
23 Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.
24 En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar.
25 Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta.
26 Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.
by Icelandic Bible Society