Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 34

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

Esterarbók 3:1-4:3

Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru.

Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum.

Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði, við Mordekai: "Hví brýtur þú boð konungs?"

Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur.

Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði.

En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai.

Í fyrsta mánuðinum _ það er í mánuðinum nísan _ á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar.

Og Haman sagði við Ahasverus konung: "Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa.

Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs."

10 Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga.

11 Síðan sagði konungur við Haman: "Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar."

12 Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs.

13 Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _ og ræna fjármunum þeirra.

14 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag.

15 Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa.

En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega.

Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk.

Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku.

Hið almenna bréf Jakobs 1:19-27

19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.

20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.

21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.

23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.

24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.

25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.

26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.

27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

Matteusarguðspjall 6:1-6

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Matteusarguðspjall 6:16-18

16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,

18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society