Book of Common Prayer
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
5 En í borginni Súsa var Gyðingur nokkur, að nafni Mordekai Jaírsson, Símeísonar, Kíssonar, Benjamíníti,
6 er fluttur hafði verið frá Jerúsalem með þeim hernumdu, er fluttir voru burt með Jekonja Júdakonungi, þeim er Nebúkadnesar Babel-konungur flutti burt.
7 Og hann var fósturfaðir Hadassa, það er Esterar, dóttur föðurbróður hans, því að hún var föður- og móðurlaus. Og stúlkan var fagurvaxin og fríð sýnum, og er faðir hennar og móðir önduðust, þá hafði Mordekai tekið hana sér í dóttur stað.
8 Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar.
15 Þegar nú röðin kom að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekai, er hann hafði tekið sér í dóttur stað, að hún skyldi inn ganga fyrir konung, þá bað hún ekki um neitt, nema það sem Hegaí geldingur konungs, kvennavörðurinn, tiltók. Og Ester fann náð í augum allra þeirra, er hana sáu.
16 Og Ester var tekin inn til Ahasverusar konungs, inn í hina konunglegu höll hans, í tíunda mánuðinum _ það er tebetmánuður _ á sjöunda ríkisstjórnarári hans.
17 Og konungur fékk meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar. Og hann setti hina konunglegu kórónu á höfuð henni og gjörði hana að drottningu í stað Vastí.
18 Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum, Esterar-veislu, lét halda hvíldardag í skattlöndunum og gaf gjafir með konunglegu örlæti.
19 Þá er meyjum var í annað sinn safnað og Mordekai sat í konungshliði _
20 en Ester hafði ekki sagt frá ætt sinni eða hverrar þjóðar hún væri, svo sem Mordekai hafði boðið henni, með því að Ester hlýddi fyrirmælum Mordekai, eins og þegar hún var í fóstri hjá honum _
21 í þann tíma, þá er Mordekai sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir geldingar konungs, af þeim er geymdu dyranna, og leituðu eftir að leggja hendur á Ahasverus konung.
22 Þessa varð Mordekai áskynja og sagði Ester drottningu frá því, en Ester sagði konungi frá í nafni Mordekai.
23 Og er málið var rannsakað og þetta reyndist satt að vera, þá voru þeir báðir festir á gálga. Og þetta var ritað í árbókina í viðurvist konungs.
16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum.
17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.
18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: "Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?" Aðrir sögðu: "Hann virðist boða ókennda guði," _ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.
19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: "Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með?
20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er."
21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.
22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: "Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,
23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.
24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð.
25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.
26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.
27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.
28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.`
29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna.
30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum,
31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum."
32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: "Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni."
33 Þannig skildi Páll við þá.
34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.
44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,
45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.
46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.
47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.
48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.
49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.
50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."
by Icelandic Bible Society