Book of Common Prayer
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?
3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.
4 Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.
5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]
6 Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.
7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.
8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.
51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,
2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.
3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,
5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
6 Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.
7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.
8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!
9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.
11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.
12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.
13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,
15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.
16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.
17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.
19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.
20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!
21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.
29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:
24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn,
25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill og að hönd mín aflaði svo ríkulega,
26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein, og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram,
27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum, svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana,
28 það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.
29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann _
30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga að ég með formælingum óskaði dauða hans.
31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt: "Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?"
32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði, heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum.
33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra, og falið misgjörð mína í brjósti mínu,
34 af því að ég hræddist mannfjöldann, og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig, svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr,
35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig! Hér er undirskrift mín _ hinn Almáttki svari mér! Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal!
36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni, binda það sem höfuðsveig um ennið,
37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu og ganga sem höfðingi fram fyrir hann! Hér enda ræður Jobs.
38 hafi akurland mitt hrópað undan mér og öll plógför þess grátið,
39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust og slökkt líf eiganda þess,
40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis og illgresi í stað byggs.
12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.
13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu, sagði Jakob: "Bræður, hlýðið á mig.
14 Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.
15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er:
16 Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur,
17 svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta
18 kunnugt frá eilífð.
19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs,
20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði.
21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."
30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum.
31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar.
32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn."
33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög
34 og sagði: "Hvar hafið þér lagt hann?" Þeir sögðu: "Herra, kom þú og sjá."
35 Þá grét Jesús.
36 Gyðingar sögðu: "Sjá, hversu hann hefur elskað hann!"
37 En nokkrir þeirra sögðu: "Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?"
38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir.
39 Jesús segir: "Takið steininn frá!" Marta, systir hins dána, segir við hann: "Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag."
40 Jesús segir við hana: "Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?"
41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: "Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig.
42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig."
43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: "Lasarus, kom út!"
44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: "Leysið hann og látið hann fara."
by Icelandic Bible Society